Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna varð 10% aukning meðal yngsta aldurshópsins, 20 til 30 ára, á milli áranna 1999 og 2000. Vanskil nema um 20% af heildarskuldum hjá þeim sem leituðu til Ráðgjafastofunnar.
Frá því að starfsemi Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna hóf starfsemi á árinu 1996 hafa verið afgreiddar 2704 umsóknir um ráðgjöf eða 540 umsóknir að meðaltali á ári. Frá síðustu áramótum og út maí 2001 hafa verið unnar 325 umsóknir um ráðgjöf í samanburði við 270 umsóknir fyrir sama tímabil 2000. Aðsókn er alltaf umfram eftirspurn og í viku hverri eru að meðaltali 40 manns sem ekki fá tíma i fyrstu tilraun. Tæplega 78% af heildarskuldum þeirra sem til Ráðgjafastofu leita eru veðskuldir og önnur bankalán, þ.m.t. yfirdráttarheimildir. Rúmlega 22% af heildarskuldum samanstanda af bílalánum, kreditkortaskuldum, námslánum, meðlagsskuldum, skattskuldum og öðrum skuldum samanlagt. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna var sett á stofn sem tilraunaverkefni í febrúar árið 1996. Að Ráðgjafarstofunni standa félagsmálaráðuneytið, Íbúðalánasjóður, Reykjavíkurborg, Landsbanki Íslands h.f.,Búnaðarbanki Íslands h.f., Íslandsbanki hf., Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin, Þjóðkirkjan, Landsamtök lífeyrissjóða, ASÍ og BSRB. Markmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna er m.a. að aðstoða fólk með fræðslu og ráðgjöf við að minnka greiðslubyrði og að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun, m.a. með því að aðstoða fólk við að létta greiðslubyrði og minnka skuldir með sölu eigna, markvissum sparnaði og breyttu neyslumynstri.