Hann byrjaði að borga í Lífeyrissjóð byggingamanna árið 1970. Nær þremur áratugum síðar tók hann sæti í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins og hefur verið í forystusveit þar og síðar í Birtu lífeyrissjóði þar til nú. Í fjögur ár var hann líka stjórnarmaður í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Hann hætti í stjórn Birtu á ársfundi sjóðsins 2. maí og á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða 29. maí stígur hann upp úr stól stjórnarformanns samtakanna eftir að hafa verið þar í þrjú ár og gefur ekki kost á sér til endurkjörs í stjórnarkjöri.
Þorbjörn Guðmundsson hættir því á toppnum í ýmsum skilningi.
„Ég er sáttur við að hætta núna í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða og ánægður með áherslubreytingar í starfinu þar. Ég vildi í upphafi efla almannatengsl og kynningarstarf samtakanna, sömuleiðis styrkja innra kynningarstarf og samtal við fjölmiðla og almenning. Það hefur gengið eftir og þar hefur verið lagður góður grunnur til að byggja ofan á.“
Þorbjörn kvaddi meðstjórnendur, starfsfólk og sjóðfélaga í Birtu á ársfundinum þar með eftirminnilegu og persónulegu ávarpi og rifjaði meðal annars upp tíma efnahagshrunsins og afleiðinga þess. Hann fór út að ganga á kvöldin til að hreinsa hugann en það dugði ekki til.
„Við vorum svo varnarlaus í lífeyrissjóðunum þegar atburðarásin fór af stað og gátum framan af lítið annað gert en reyna að meta eignasöfnin, átta okkur á umfangi tjónsins og hvar þetta gæti eiginlega endað í versta falli.
Ekki man ég til þess að við óttuðumst að sjálft lífeyriskerfið hryndi eins og bankarnir en vissum strax að réttindi sjóðfélaga myndu skerðast. Við í Sameinaða lífeyrissjóðum vorum hreinskilin við sjóðfélaga frá upphafi, útskýrðum stöðuna á sjóðfélagafundum og sigldum þannig í gegnum brimskaflana.
Réttindin voru skert og okkur hefur ekki tekist að skila því til baka sem tapaðist. Í mér sitja vonbrigði með að hafa ekki getað afstýrt réttindaskerðingunni.
Vissulega voru lífeyrissjóðirnir sá hluti fjármálakerfis þjóðarinnar sem stóð uppi þegar annað hrundi og það er út af fyrir sig áhugavert. Almenningur horfir samt frekar á afleiðingarnar, réttindaskerðinguna, en þá staðreynd að lífeyriskerfið stóð af sér hrunið.
Lífeyrissjóðirnir njóta sjaldan sannmælis í umræðunni, finnst mér. Líklega verða eftirmæli fræðimanna og sögunnar jákvæðari þegar fram líða stundir. Horft verður til stöðu lífeyrissjóða í hruninu og þeirrar staðreyndar að þeir störfuðu þrátt fyrir allt eins og til var ætlast og greiddu út verðtryggðan lífeyri.“
Fyrir tíma efnahagshrunsins hafði því verið hreyft að sameina Sameinaða lífeyrissjóðinn og Stafi lífeyrissjóð, sjóði sem voru af svipuðum meiði hvað bakland varðaði og álíkir að stærð og uppbyggingu. Þetta hafði reyndar borið á góma áður og verið kannað óformlega en ekki verið látið reyna á sameiningu með formlegum viðræðum.
Snemma vors 2016 lét framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins af störfum og Þorbjörn Guðmundsson fékk þá hugmynd í gönguferð sinni að kvöldi dags að hreyfa nú enn og aftur hugmynd um sameiningu við Stafi. Hann nefndi þetta á stjórnarfundi sjóðsins og stjórnin samþykkti að kanna hug Stafa til sameiningar.
Skemmst er frá að segja að formlegar viðræður hófust um sumarið og 1. desember 2016 tók sameinaður sjóður til starfa undir nafni sem aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinaða, Ólafur Haukur Jónsson, lagði í púkkið í nafnasamkeppni starfsfólks nýja sjóðsins. Birta lífeyrissjóður varð til, fjórði stærsti lífeyrissjóður landsmanna í eignum talið.
„Við vorum mjög vel sett hjá Sameinaða með Ólaf Hauk sem staðgengil framkvæmdastjóra, mjög góðan stjórnanda. Okkur lá ekkert á þess vegna en mér fannst staðan einfaldlega vera tilefni þess að heyra á ný hljóðið í Stafafólki.
Satt best að segja er ég gríðarlega ánægður með sameiningu sjóðanna tveggja. Viðræðurnar gengu hratt og vel, hópurinn var samstilltur og ætlaði sér að ljúka verkefninu örugglega. Þetta var skemmtilegur og eftirminnilegur tími.
Eftir á að hyggja skynja ég líka betur og betur að sameiningin hjálpaði okkur til að hreinsa burt neikvæðni efnahagshrunsins og skapa tækifæri til að stíga inn í nýja tíma. Við þurftum kannski þennan áfanga til að líta af meiri bjartsýni fram á veginn frekar en að horfa til hrunsins í baksýnisspegli.“
Kerfið betra en umræðan gefur til kynna
– Þér þykir lífeyriskerfið ekki njóta sannmælis í þjóðmálaumræðunni. Hver er skýringin á því?
„Staða lífeyrissjóðakerfisins í huga almennings í landinu endurspeglar ekki raunveruleikann. Ég tel mig þekkja kerfið býsna vel og hef kynnst því að þar starfar ótrúlega hæft og heiðarlegt fólk sem leggur sig fram á hverjum einasta degi um að skila sem bestu verki. Viðhorf fólks virðist hins vegar vera fremur neikvætt á köflum og margir vilja jafnvel meina að lífeyrissjóðunum stjórni lokaðar klíkur, þar ríki sérplægni og spilling og annað eftir því.
Veruleikinn er sem betur fer allt annar. Vel er haldið á málum og lífeyrissjóðakerfið er gríðarlega sterkt að mati þeirra sem það hafa kannað. Erlendis þykja Íslendingar hafa sýnt mikla framsýni með stofnun lífeyrissjóða. Kerfið varð ekki til af sjálfu sér og fjölmargir eiga heiður af því að hafa komið því á og tryggt þannig vinnandi fólki bætta afkomu við starfslok. Verkalýðshreyfingin hefur barist áratugum saman fyrir auknum lífeyrisréttindum og því er dálítið dapurlegt þegar forystumenn í sjálfri verkalýðshreyfingunni ýta undir umræðu á neikvæðum nótum.
Ég fagna kynslóðaskiptum í verkalýðshreyfingunni og óska nýjum verkalýðsforingjum alls hins besta en ég vil brýna þá til að verja þessi réttindi launafólks með kjafti og klóm. Það þýðir ekki að engu megi breyta en þegar við gerum breytingar þurfa þær að vera vel unnar og útfærðar.
Velferðarkerfið okkar hefur verið byggt upp á áratugum, þar á meðal lífeyriskerfið sem stendur undir velferð okkar að miklu leyti eftir starfslok. Við verðum vissulega að þróa lífeyriskerfið áfram og laga það að breyttum tímum. Farsælast er að það sé gert hægt og bítandi en ekki með því að ráðast að sjálfum undirstöðum þess.
Ég hvet nýja kynslóð verkalýðsforingja, og aðra sem gagnrýna lífeyrissjóðakerfið til að velja uppbyggilegar leiðir til að ná fram breytingum. Launafólk og leiðtogar þess þurfa að ákveða í sameiningu hverju skuli breyta áður en lagt er til atlögu og traust okkar mikilvæga lífeyriskerfis í heild sinni er lagt að veði.
Við megum aldrei missa sjónar á því að við erum að höndla með réttindi almennings sem hann hefur byggt upp alla starfsævina og lagt traust sitt á. Það skapar óöryggi hjá eftirlaunafólki að heyra nær eingöngu talað neikvætt um sjóðinn, sem það er búið að greiða í alla ævina, af fólki sem velst til forystu til að gæta hagsmuni þess.“
– Í kveðjuávarpinu á ársfundi Birtu lífeyrissjóðs nefndir þú samskipti stjórnarmanna í Birtu og áður í Sameina lífeyrissjóðnum og sagðir að þar hefðu skoðanaskipti aldrei verið eftir markalínum atvinnurekenda og launamanna. Sumir halda því stíft fram opinberlega að brýnt sé að „kasta atvinnurekendum“ úr stjórnum lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði. Hvernig horfir það við þér?
„Út af fyrir sig eru ekki efnisleg rök fyrir því að atvinnurekendur séu í stjórnum lífeyrissjóða nema þá sem sjóðfélagar, sem þeir vissulega eru líkt og hverjir aðrir.
Þetta fyrirkomulag, helmingaskipti fulltrúa launafólks og atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða, varð til í kjarasamningum á sínum tíma. Kostir fyrirkomulagsins eru fleiri en gallar. Ég hef hreinlega aldrei upplifað í mínu starfi í stjórn lífeyrissjóðs að þar séu annars vegar fulltrúar atvinnurekenda og hins vegar fulltrúar launafólks. Samskiptin við atvinnurekendur á þessum vettvangi hafa undantekningarlaust verið farsæl og góð, sjóðunum og sjóðfélögum til gagns.
Ég hef aldrei kynnst öðru en því að atvinnurekendur ræki starf sitt í lífeyrissjóðum af fullum heilindum, aldrei kynnst því að þeir séu til að dæmis að reyna að hygla einhverjum fyrirtækjum í fjárfestingum og kann engin dæmi að nefna um að atkvæðagreiðsla í stjórn lífeyrissjóðs hafi tekið mið af baklandi stjórnarmanna á vinnumarkaði.“
– Í kosningabaráttu vegna alþingiskosninga á síðasta ári og í aðdraganda sveitastjórnarkosninga nú heyrðist hvað eftir annað að lífeyrissjóðir ættu að gera þetta og hitt, annað hvort með góðu eða lagaboði ef annað dygði ekki til ...
„Já, stjórnmálamenn vilja ráðskast með fjármuni lífeyrissjóða, sumir hverjir að minnsta kosti. Fjármálaöflin vilja líka hafa puttana í lífeyrissjóðum og sækja sér fjármuni.
Aðgæslu er því þörf í stjórnum lífeyrissjóðanna en ég hef minni áhyggjur af þessu en ef lífeyriskerfið hefði ekki þennan trausta bakhjarl sem er heildarsamtök almenna vinnumarkaðarins, Alþýðsamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Það þarf að verjast og sækja fram þegar breytinga er þörf.
Að þessu leyti er styrkur í því fyrir kerfið að hafa atvinnurekendur sem beina þátttakendur í stjórnum lífeyrissjóða. Gleymum því svo ekki að margar mikilsverðar breytingar í lífeyrismálum eiga rætur að rekja til ákvæða í kjarasamningum launafólks og atvinnurekenda.“
– Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á dögunum á morgunfundi Landssamtaka lífeyrissjóða og vefritsins Kjarnans efnislega á þá leið að hugsanlega væri of dýru verði keypt að jafna lífeyrisréttindi á opinberum og almennum vinnumarkaði. Lífeyrissjóðaiðgjöld yrðu of há. Hvað segir þú?
„Ég svaraði því til þar og segi enn að eina færa leiðin til að samræma lífeyrisréttindin er að „jafna upp á við“ réttindi á almenna markaðinum. Við höfum nú þegar 15,5% iðgjald í lífeyrissjóði starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Sama á við um orkufyrirtæki og fleiri.
Menn velta fyrir sér hvort hærra iðgjald geri lífeyriskerfið of stórt fyrir hagkerfið okkar til lengri tíma en ég deili ekki slíkum áhyggjum. Þjóðin eldist hlutfallslega og við þurfum enn meiri fjármuni til að standa undir lífeyri framtíðarinnar. Svo verð ég ekki endilega var við að eldri borgurum þyki lífeyrir sinn vera of rausnarlegur!
Framtíðin og ekki síst ávöxtun eigna sjóðanna sker úr um hvort lífeyriskerfið verður óþægilega stórt. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi ávöxtun, ekki heldur seðlabankastjórinn. Verði ávöxtun 2% að jafnaði næstu áratugi fer lífeyriskerfið að minnka tiltölulega fljótlega. Verði ávöxtunin hins vegar að jafnaði 3,5% heldur það áfram að stækka.“
– Breytingar á lífeyriskerfinu verða við kjarasamningaborðið, segir þú. Aðrar breytingar verða við önnur borð og þær eru ekki endilega á traustum grunni. Nærtækt er að nefna tilgreinda séreign og hálfan lífeyri?
„Hálfur lífeyrir er jákvætt mál sem lífeyrissjóðirnir sjálfir hefðu átt að hrinda í framkvæmd og standa vel að en nú horfum við á afleiðingar lagabreytingar og útfærslu í opinberri stjórnsýslu sem flokkast satt best að segja sem alveg dæmalaust klúður. Útfærslan er þannig að breytingin gagnast fyrst og fremst fólki með háar tekjur, enda er hún án samráðs við Landssamtök lífeyrissjóða sem hafa á sínum snærum sérfræðinga og þekkingu á málum. Okkur var haldið utan við atburðarásina í aðdraganda breytingarinnar. Dæmi um gott mál sem klúðrað var en nú er ætlunin að breyta lögum og framkvæmdinni til batnaðar.
Tilgreindu séreigninni var ætlað að auka val sjóðfélaga á þann hátt að menn gætu ákveðið sjálfir að setja 3,5% viðbótariðgjald atvinnurekenda annað hvort í samtryggingu eða í sérstakan séreignarsjóð. Við hjá Birtu lífeyrissjóði litum tilgreindu séreignina jákvæðum augum og ætluðum að kynna þennan kost sérstaklega. Af því gat ekki orðið vegna þess að tilgreindu séreignina skortir nægilega trygga lagastoð, með tilheyrandi óvissu.
Þetta er því hálfgert klúður en skapaði lífeyrissjóðum með frjálsa aðild forgjöf í samkeppni um þá sem spara í séreign. Þessir sjóðir gera mjög út á séreignarsparnað en fyrir lífeyrissjóði á almenna markaðinum hefur tilgreinda séreignin ekki orðið sá jákvæði kostur sem til stóð vegna þess að lagastoð hennar er ekki styrk sem skyldi.“
– Þegar þú stígur nú upp úr formannsstóli Landssamtaka lífeyrissjóða og horfir yfir sviðið og til baka. Er þetta stjórnskipulag lífeyriskerfisins eins og þú vildir hafa það ef þú mættir ráða?
„Hér er stórt spurt en ég skal svara umbúðalaust!
Mér finnst knýjandi að rætt sé í lífeyriskerfinu hvort ekki beri að marka hlutverkum þar skýrari og ákveðnari sess en nú er. Þróun kerfisins á sér að stórum hluta stað í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða og í afar umfangsmiklu starfi í vinnuhópum samtakanna. Landssamtökin eiga samskipti við Alþingi og Stjórnarráðið við útfærslu og breytingar margra lagabálka og reglugerða sem að lífeyrissjóðum og sjóðfélögum snúa en greinileg óvissa ríkir samt um nákvæmlega hver geri hvað til að knýja á um að fylgja verkefnum eftir og sjá til að þeim ljúki.
Ég skynja oft þessa óvissu og mér sýnist hún skýra að sum mál þvælist í kerfinu okkar tímunum saman án niðurstöðu.“
– Nefndu dæmi!
„Ætli það hafi ekki verið árið 2010 þegar spurt var hvort og hvernig skuli bregðast við þeirri staðreynd að þjóðin eldist og ákveðnar tillögur mótaðar til að ræða og kanna hvort þær gengju lýðfræðilega upp að einhverju eða öllu leyti. Tillögurnar eru enn í kerfinu hjá okkur árið 2018. Við höfum ekki komist að niðurstöðu og nálgumst eiginlega ekki að fá botn í málið í okkar ranni.
Tilgreinda séreignin er annað dæmi. Hver á að taka hana í fangið og fylgja því eftir að málið verði klárað?
Í þriðja lagi hafa landssamtökin haft frumkvæði í vetur að merkilegri umræðu um hvernig eigi að þróa sjálft lífeyriskerfið áfram og leita sér mögulega fanga líka á erlendum vettvangi um aðstoð, ráð og leiðbeiningar. Hvernig á að halda umræðunni áfram þannig að hún skili niðurstöðu og raunverulegum árangri? Þar ættu Landssamtök lífeyrissjóða að hafa skýrt hlutverk en mér sýnist málið dingla í raun munaðarlaust í lausu lofti. Það er synd.“
- Hvað ber að gera?
„Ég nefni fyrst að í gegnum tíðina hafa Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins dregið vagninn varðandi lífeyriskerfið. Nú gengur ekki lengur að þessi tvö heildarsamtök eigi bara samtal sín á milli um þróun kerfisins. Þegar lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna og starfsmanna sveitarfélaga, LSR og Brú, hafa verið settir undir sömu löggjöf og sjóðir almenna vinnumarkaðarins blasir við að breyta þurfi vinnubrögðum og tryggja aðkomu allra.
Á bak við opinberu sjóðina eru ekki kjarasamningar og því síður á bak við sjóðina sem hafa frjálsa aðild líkt og hjá sjóðum sem falla undir kjarasamninga ASÍ og SA.
Forysta Landssamtaka lífeyrissjóða horfir á lífeyrissjóðahópinn sem eina heild og starfar í þágu allra. Bakland landssamtakanna lítur hins vegar ekki á hópinn sem eina heild. Samtalið um þróun kerfisins verður því oft takmarkaðra og þrengra en það þyrfti að vera. Við þurfum að breyta þessu og það munu allir hagnast af því. Ekki síst þannig munu mál ganga hraðar í gegnum stjórnkerfið en nú gerist.“
– Í lokin. Áleitinni fullyrðingu heyrist stundum varpað fram: Menn eiga ekki að vera lengi í stjórnum lífeyrissjóða heldur tryggja þar endurnýjun. Hvað segir þú eftir stjórnarsetu í nær tvo áratugi?
„Á þessu eru tvær hliðar eins og fleiru. Menn eiga að jafnaði ekki að vera tímunum saman í stjórnum svona yfirleitt en ég velkist ekki í vafa um að tíðar mannabreytingar í stjórnum lífeyrissjóða færa fyrst og fremst meiri völd til framkvæmdastjóra sjóðanna. Það er ekki ákjósanlegt þótt fjöldi valinkunnra sómamanna gegni þeim störfum.
Virkur stjórnarmaður verður ekki til á skömmum tíma. Hann þarf að setja sig inn í gríðarlegt regluverk og stíga inn í flókið ákvörðunarferli sem tíma tekur að ná tökum á. Stjórnarmenn þurfa að vera virkir við að varpa fram spurningum aftur og aftur til að tryggja að vinna sérfræðinga sjóðanna sé vönduð og rökstudd. Í því felst aðhaldið. Að vera góður spyrjandi kallar á þekkingu og reynslu.
Ég vil ekki að stjórnarseta í lífeyrissjóði verði aðallega hugsuð fyrir lögfræðinga, viðskiptafræðinga og aðra sérfræðinga, heldur að fólk úr ýmsum geirum atvinnulífs og samfélags verði þar áfram líka, hér eftir sem hingað til.
Stjórnarmenn bera mikla ábyrgð og taka hlutverk sitt alvarlega, undantekningarlaust. Efnahagshrunið varð til þess að auka svo mjög eftirlit með starfseminni, breyta stjórnarháttum og auka ábyrgð stjórnarmanna að alls ekki er hægt að bera saman lífeyrisjóði fyrir og eftir hrun. Of hröð endurnýjun í stjórnum hugnast mér því ekki.
Ég hverf frá borði Landssamtaka lífeyrissjóða bærilega sáttur við stöðuna þar og tilveruna í lífeyrissjóðakerfinu, þrátt fyrir það sem ég hef sagt hér.
Ég þakka samferðamönnum í lífeyrissjóðunum og á vettvangi landssamtakanna kærlega fyrir samstarf og samskipti. Þetta hefur verið bæði áhugavert og gefandi starf í góðum hópi og verður alltaf á þægilegum stað í minningunni.“