Samkomulag um greiðslufresti á lánum fyrirtækja

Samkomulag um greiðslufresti á lánum fyrirtækja

Lánveitendur hafa gert með sér samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja. Er samkomulagið hluti af viðbrögðum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða við efnahagsáhrifum heimsfaraldurs Covid-19 og er ætlað að styðja við fyrirtækin í landinu og starfsfólk þeirra. Ljóst er að Covid-19 mun trufla atvinnustarfsemi tímabundið hér á landi og hafa í för með sér greiðsluerfiðleika hjá fyrirtækjum. Aðilar samkomulagsins telja mikilvægt að lánveitendur veiti fyrirtækjum nauðsynlegt ráðrúm til að takast á við rekstraráskoranir sem við blasa vegna heimsfaraldursins.

Aðilar samkomulagsins eru; Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Kvika, Lykill, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir.

Samkomulagið greiðir fyrir hraðri og samræmdri úrlausn mála og stuðlar að jafnræði, bæði á milli lánveitenda og fyrirtækja.  Samkomulagið gildir til loka júní 2020 og er gert ráð fyrir að hægt sé að framlengja það ef nauðsyn krefur. Felur samkomulagið m.a. í sér:

  • Fyrirtæki geta sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði hjá aðalviðskiptabanka sínum eða sparisjóði sem leggur mat á hvort fyrirtæki uppfylli viðmið samkomulagsins.
  • Aðalviðskiptabanki eða sparisjóður tilkynnir öðrum lánveitendum sem aðilar eru að samkomulaginu um frestunina.
  • Aðilar samkomulagsins fresta þá greiðslum afborgana og vaxta sem leggjast við höfuðstól og skal samningstíminn lengjast sem nemur fjölda frestaðra afborgana. Skuldir án gjalddaga frestast til loka samningstíma. Frestaðar greiðslur bera sömu vexti og upphaflegt lán.

Samkomulagið nær til rekstrarfyrirtækja sem selja vöru og þjónustu og uppfylla tiltekin skilyrði:

  • Eru í heilbrigðum rekstri en verða fyrir tímabundnu tekjufalli sem leiðir til rekstrarvanda vegna heimsfaraldursins.
  • Hafa ekki verið í vanskilum í 60 daga eða lengur í lok febrúar síðastliðinn.
  • Hafa nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.

Markmið samkomulagsins er að sem flest fyrirtæki geti komist hratt í skjól með einföldum hætti. Samkomulagið kemur ekki í veg fyrir að einstakir lánveitendur geti áfram unnið með sínum viðskiptavinum þó þeir kunni að falla fyrir utan viðmið samkomulagsins.

Samkeppniseftirlitið hefur veitt aðilum samkomulagsins undanþágu á grundvelli samkeppnislaga fyrir gerð samkomulagsins og framkvæmd þess með ákveðnum skilyrðum.

Önnur úrræði sem bankar og sparisjóðir koma að, svo sem úttekt séreignarsparnaðar og brúarlán til fyrirtækja eru nú til meðferðar  á Alþingi. Nánar verður greint frá fyrirkomulagi þeirra úrræða þegar afgreiðslu þeirra er lokið.

Samkomulag