"Ráðamenn í fyrirtækjum horfa almennt ekki meðvitað til aldurs umsækjenda um störf, heldur til menntunar, þekkingar og reynslu þeirra. Umsækjendurnir sjálfir virðast jafnvel oft uppteknari af eigin kennitölu og aldri en þeir sem ráða í störfin." sagði Jakobína H. Árnadóttir, hópstjóri ráðninga hjá Capacent, á málþingi um áskoranir vinnumarkaðarins vegna hækkandi lífaldurs sem aðilar vinnumarkaðarins stóðu að í apríl 2016.
Jakobína sagði nokkuð oft koma fyrir að fólk, sem komið væri undir og um sextugt, spyrði í ráðningarferli hjá Capacent hvort aldur þess skipti ekki máli. Raunin væri samt sú að fyrirtæki leituðu fyrst og fremst að starfsfólki með reynslu, menntun, þekkingu og viðhorf við hæfi starfsins.
Capacent er með um 16.000 manns í gagnagrunni sínum, þar af einungis 500-600 á aldrinum 60-69 ára en til samanburðar tæplega 3.000 á aldrinum 35-39 ára. Þessar tölur benda til þess að fáir í efri þrepum aldursstigans sæki um störf sem auglýst eru í gegnum Capacent og má velta fyrir sér hvernig á því stendur.
"Samkvæmt bestu aðferðum við mannaráðningar skiptir aldur ekki máli. Góð ráðning telst vera til fjögurra til sjö ára og ætti því ekki að vera hindrun fyrir eldra fólk á vinnumarkaði. Við rekum okkur samt á að til undantekningar heyrir að fyrirtæki hafi beinlínis sett sér stefnu eða markmið að þessu leyti, á sama hátt og þau hafa mörg hver sett sér áætlun um jafnrétti kynja.
Eitt dæmi má nefna um fyrirtæki sem hefur markað sér stefnu varðandi aldursdreifingu starfsmanna. Capacent vann að því að manna stórt iðnfyrirtæki og eigendur þess vildu að hópurinn endurspeglaði samfélagið með því að hafa þar starfsmenn á öllum aldri. Starfslokastefna var gerð sveigjanleg til sjötugs og ánægja ríkti með það. Eldri starfsmennirnir reyndust vel og þeirra var sárt saknað við starfslok. Tilvera þeirra á vinnustaðnum hafði mikil og góð áhrif á starfsmenningu fyrirtækisins."