- kjarasamningar sem enn eru Magnúsi L. Sveinssyni í fersku minni
„Kjarasamningar vorið 1969 mörkuðu tímamót vegna ákvæðis um aðild launafólks í verkalýðsfélögum á almennum markaði að lífeyrissjóðum. Lög um skylduaðild allra launamanna að lífeyrissjóðum voru sett nokkru síðar, árið 1974, og tóku líka til þeirra
sem voru utan verkalýðsfélaga.
Sjómenn og verslunarmenn höfðu áður stofnað lífeyrissjóði og opinberir starfsmenn sömuleiðis en í framhaldi af samningunum 1969 urðu til lífeyrissjóðir sem starfræktir voru á félagsgrundvelli fyrir aðra launamenn á Íslandi.
Þarna var lagður grunnur að lífeyriskerfinu sem við búum við í dag, kerfi sem stendur sannarlega fyrir sínu en ýmsir sjá ástæðu til að agnúast út í, óverðskuldað,“ segir Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann er meðal fárra eftirlifandi í hópi þeirra sem skrifuðu undir samningana 1969 og sá atburður er honum í fersku minni.
„Ótrúlega algengt er að heyra fólk nú til dags tala um að réttindi til lífeyris eða atvinnuleysisbóta séu „bara sjálfsögð mannréttindi“. Það er alls ekki svo! Fyrir öllum réttindum þurfti láglaunafólk að berjast og kostaði stundum margra vikna verkföll að ná þeim í gegn. Það vill oft gleymast þegar frá líður.“
Lífeyrissjóður verslunarmanna tók til starfa í febrúar 1956 á grundvelli kjarasamnings frá 1955. Verslunarmenn urðu jafnframt að fallast á að eiga ekki aðild að Atvinnuleysistryggingarsjóði sem stofnaður var með lögum 1955. Verslunarmenn fengu ekki aðild að þeim sjóði fyrr en 1966 og þurfti verkfall til að knýja þá í gegn.
„Lífeyrissjóður verslunarmanna var orðinn býsna öflugur þegar samið var um skylduaðild fyrir almenna vinnumarkaðinn 1969 og lagði í framhaldinu verulega fjármuni inn í nýja lífeyriskerfið til að koma því á legg, í nafni samhjálpar. Sett voru lög um eftirlaun til aldraðra félaga í verkalýðsfélögum árið 1970 til að tryggja þeim eftirlaunarétt. Dæmi má taka af sjötugum félaga í nýjum lífeyrissjóði. Sá hafði að sjálfsögðu engin lífeyrisréttindi áunnið sér en fékk úthlutað réttindum sem svaraði til þess að hann hefði safnað þeim í 15 ár. Atvinnuleysistryggingarsjóði var gert að greiða þrjá fjórðu hluta tilheyrandi kostnaðar og ríkissjóður fjármagnaði fjórðung kostnaðar.
Síðar var samið um að lífeyrissjóðir á almennum markaði greiddu verðlagsuppbætur á lífeyri með því að láta 4% af iðgjaldatekjum sínum renna í sérstakan jöfunarsjóð sem greiddi út uppbæturnar. Sú ráðstöfun gjörbreytti stöðu fólks á eftirlaunum og
Lífeyrissjóður verslunarmanna gerði betur en honum bar í raun með því að greiða meira í jöfnunarsjóðinn en sem nam framlagi vegna aldraðra verslunarmanna.“
„Auðvitað var tekist á um kaup og kjör í kjarasamningunum 1969 en lífeyrissjóðamálið var meginefnið og það atriði sem gerir samningana merkilega enn þann dag í dag. Almenn skylduaðild að lífeyrissjóðum lagði grunn að því sterka lífeyriskerfi sem við búum við.
Sumir virðast líta það sem köllun sína að tala niður lífeyrissjóði og finna þeim flest til foráttu, ekki síst eftir bankahrunið. Alltaf er nú auðvelt að vera vitur eftir á og vel má vera að hægt hefði verið að gera eitt og annað öðru vísu fyrir daga hrunsins. Enginn sá samt fyrir að heilt fjármálakerfi færi á hliðina á fáeinum sólarhringum.
Stjórnum lífeyrissjóða ber skylda til þess lögum samkvæmt að ávaxta eignir sjóðanna. Þær verða því að fjárfesta, sem auðvitað fylgir stundum áhætta. Hrunið kom á lífeyrissjóði líkt og aðra í fjármálaheiminum en staða þeirra er misjöfn. Sumir sjóðir höfðu náð svo góðri ávöxtun fyrir hrun, umfram verðlagsþróun, að þeir geta nú greitt út verðbættan lífeyri þrátt fyrir að hafa tapað hluta eigna sinna í hruninu. Rétt er að hafa þetta á hreinu.
Eitt ber samt að nefna hér sem veldur í vaxandi mæli óánægju meðal lífeyrisþega: skerðingarákvæði Tryggingastofnunar. Þeim fjölgar stöðugt sem komnir eru á eftirlaunaaldur og eru byrjaðir að fá greiðslur úr almenna lífeyrissjóðakerfinu. Aldraðir vakna síðan upp við þann vonda draum að greiðslur frá Tryggingastofnun eru stórlega skertar einmitt þegar þeir vilja njóta ávaxanna af því að hafa lagt hluta launa sinna í lífeyrissjóði og greitt jafnframt
iðgjald sitt til almannatryggingakerfisins, oft af lágum launum.
Þetta er ótækt. Þegar öllu er á botninn hvolft hafa lífeyrissjóðir góðan málstað en mér þykir nokkuð á skorta að forystumenn þeirra komi fram á sviðið til að segja frá og svara ótal staðleysum og rangfærslum sem bornar eru á borð aftur og aftur í þjóðmálaumræðunni. Það á ekki að láta menn komast upp með fara með fleipur þess að taka á móti þeim.“