Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, er í hópi reynslubolta íslenska lífeyrissjóðakerfisins, hefur marga fjöruna sopið í málefnum lífeyrissjóða og hóf meira að segja þann feril í sjálfum höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann starfaði í sex ár í fjármáladeild samtakanna og síðan í þrjú ár hjá lífeyrissjóði starfsmanna SÞ. Sá sjóður er mjög stór, hefur umsvif um víða veröld og var meðal fyrstu alþjóðlegra lífeyrissjóða til að fjárfesta í svokölluðum nýmarkaðsríkjum þar sem stjórnmál þvælast oftar en ekki fyrir viðskiptum. Það kom ekki endilega til af góðu en reyndist sjóðnum vel til lengri tíma litið.
„Mörg aðildarríki mega greiða framlög sín til Sameinuðu þjóðanna í eigin gjaldmiðlum sem fæstir eru gjaldgengir í viðskiptum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Sjóðurinn varð því að nokkru leyti að taka við fjármunum frá stofnuninni í tregseljanlegum gjaldmiðlum á almennum markaði og leysti þann vanda að hluta með því að fjárfesta í löndum og á svæðum sem þessir gjaldmiðlar áttu rætur að rekja til. Eignasamsetning sjóðsins var um 70% í hlutabréfum og 30% í skuldabréfum.
Þessi mikla eignadreifing á landssvæði sýndi sig að gefast vel. Lífeyrissjóður starfsmanna Sameinuðu þjóðanna skertist í bankahruninu 2008 um milljarða bandaríkjadala en var lygilega fljótur að ná sér á strik á nýjan leik. Höfum þá í huga að gengi hlutabréfa á nýmarkaðssvæðum hækkuðu um hvorki meira né minna en 86% á árinu 2009!“
Gylfi er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og fór síðan í framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hann lauk MBA-prófi í fjármálafræðum og bætti við sig MA í alþjóðasamskiptum. Lokaritgerðinni skilaði hann 1990 um samskipti Íslands og Evrópubandalagsins. Þá var í deiglunni samskiptaform sem tók á sig mynd nokkru síðar sem samningurinn um Evrópska efnahagsvæðið. Hann tók gildi í ársbyrjun 1994 og er enn við lýði, brú milli EFTA- og EB-ríkja.
Að því kom að Gylfi og fjölskylda fluttu heim og hann tók við starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Vesturlands á Akranesi. Fáum árum síðar sameinuðust Lífeyrissjóður Suðurnesja og Lífeyrissjóður Suðurlands og Vestlendingar ákváðu í kjölfarið að slást í þann hóp með sameiningu.
Festa lífeyrissjóður varð til vorið 2006 með aðalskrifstofu í Reykjanesbæ og skrifstofur á Akranesi og Selfossi. Vægi héraðanna þriggja, baklands sjóðsins, má ráða af því að 31 af alls 60 fulltrúum stéttarfélaga á ársfundi Festu 2017 var af Suðurnesjum, 18 fulltrúar komu af Vesturlandi og 11 af Suðurlandi. Greiðandi sjóðfélagar eru um 19.000 og launagreiðendur um 2.500.
„Festa er lífeyrissjóður ófaglærðs verkafólks í stóriðju, fiskvinnslu, ýmsum þjónustugreinum, verktakastarfsemi og smáiðnaði. Margir einyrkjar greiða líka til okkar. Stærsti launagreiðandinn hefur um árabil verið Norðurál á Grundartanga en stóraukin umsvif á Keflavíkurvelli og í ferðaþjónustu setja mark sitt á greiðendalistann í seinni tíð. Flugþjónustufyrirtækið IGS ehf. nálgaðist Norðurál í greiðslum til sjóðsins á árinu 2017.
Festa er sá sjóður sem hefur notið hvað mestra áhrifa af uppgangi í ferðaþjónustu meðal lífeyrissjóða landsins. Við erum 10. stærsti sjóðurinn í eignum talið en sá 9. stærsti þegar horft er til iðgjaldagreiðslna. Lífeyrisbyrði sjóðsins (þ.e. hlutfall lífeyrisgreiðslna af iðgjaldatekjum) er minni en gengur og gerist eða um 39%. Sjóðurinn stækkar því hratt.
Sjóðurinn nýtur landfræðilegrar dreifingar en einnig þess að iðgjaldagreiðendur dreifast á margar atvinnugreinar. Ástandið í atvinnumálum eftir hrun hafði auðvitað áhrif hjá okkur. Þó dró aldrei verulega úr iðgjaldatekjum sjóðsins. Það er tæpast orðum aukið að á Suðurnesjum hafi margt verið hreinlega í kaldakoli en á árunum 2015-2016 fór loks að rofa til. Viðsnúningurinn var bæði kröftugur og hraður. Nú er mikil gróska í atvinnulífinu og fasteignaverð hefur hækkað verulega á skömmum tíma.
Ein birtingarmynd breytingarinnar er sú að tiltölulega fáir sjóðfélagar fengu áður lán hjá Festu og höfðu reyndar ekki svigrúm til þess. Þegar mat á fasteignum á svæðinu fór að hækka skapaðist aukið veðrými og núna á árinu 2018 hefur sjóðfélagalánum snarfjölgað. Fasteignamat ársins 2019 hækkar verulega og ég geri því ráð fyrir enn líflegri lánastarfsemi í framhaldinu. Við erum í þessum efnum um þremur árum á eftir því sem gerðist hjá lífeyrissjóðum á höfuðborgarsvæðinu.“
Fréttaþáttinn Kveik í sjónvarpi RÚV bar á góma í spjallinu, enda átti það sér stað daginn eftir að fjallað var þar um lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna í Nevadaríki í Bandaríkjunum, sjóð sem Gylfi hefur kynnt sér vel. Hann gaf lítið fyrir umfjöllun Kveiks og í kjölfarið skrifuðu þau Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, blaðagrein um efnistök og boðskap Kveiks.
„Í þættinum var dregin upp afar einföld mynd af rekstri þessa sjóðs og látið í það skína að einn maður stýri öllum fjárfestingum hans. Hið rétta er að hann útvistar allri fjárfestingarstarfsemi til fjölda ráðgjafarfyrirtækja. Beinn kostnaður sjóðsins við fjárfestingarstarfsemina er vel á sjötta milljarð íslenskra króna. Það er umtalsvert meira en nemur beinum fjárfestingargjöldum íslenskra lífeyrissjóða.“
Í þessum sama sjónvarpsþætti brá fyrir myndum af kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík og vísað til hennar sem mislukkaðrar fjárfestingar lífeyrissjóða. Festa lagði fjármuni í verksmiðjuna og Gylfi segir að málið sé líklega hið erfiðasta sem á hans borð hafi komið í framkvæmdastjóratíð sinni.
„Eðlilegt og sjálfsagt að þú spyrjir um United Silicon. Ég læt duga að stikla á mjög stóru um þann lærdóm sem við höfum dregið af því sem hér gerðist.
Eftir á að hyggja voru vinnubrögð Festu við undirbúning fjárfestingar í þessari starfsemi tiltölulega vönduð. Verkefnið naut gríðarmikils stuðnings opinberra aðila, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Mjög var kallað eftir aðkomu okkar í heimabyggðinni, eftirlitsstofnanir veittu rekstrarleyfi og jákvæðar umsagnir. Sjálft viðskiptamódelið var áhugavert fyrir sjóðinn.
Arion banki lagði mikið undir og öflugt hollenskt fyrirtæki, Bit Fondel, sömuleiðis. Við horfðum meðal annars til þessa. Fjallað var um málið á sex stjórnarfundum Festu 2014 og við keyptum viðbótargreiningu til að staðreyna kostnaðaráætlun áður en samþykkt var erindi um skuldabréfakaup, ígildi víkjandi láns á háum vöxtum. Skuldabréfið var í evrum en hafa ber í huga að á þessum tíma voru gjaldeyrishöft í gildi á landinu. Seðlabanki Íslands veitti jafnframt undanþágu frá þessum höftum.
Síðar kom á daginn að verulega skorti á þátt undirbúnings verkefnisins sem sneri að því að kanna bakgrunn og sögu drifkraftsins og lykilmannsins sem síðar varð forstjóri United Silicon. Þar kom við sögu maður með einbeittan brotavilja. Svikamyllan var ekki afhjúpuð fyrr en síðar, eftir að félagið var í raun komið í þrot.
Festa lífeyrissjóður afskrifaði verulega fjármuni vegna United Silicon. En eignir sjóðsins eru vel dreifðar og afkoma sjóðsins var mjög góð á árinu 2017. Hrein raunávöxtun eigna var 5,3% en hefði orðið um 6% ef ekki hefði komið til afskriftar þessarar fjárfestingar.
Þetta var vissulega högg en málið var á margan hátt sérstakt eða jafnvel einstakt. Við hjá Festu erum alla vega dýrkeyptri reynslu ríkari.“