Í ljósi þeirra málaferla sem nú standa yfir og annarra sem framundan eru telur stjórn Lífeyrissjóðas Austurlands rétt að nýir aðilar taki við stjórnartaumum á fyrirhuguðum fulltrúaráðsfundi 26. maí n.k. Sjá fréttatilkynningu stjórnar sjóðsins.
Stjórn Lífeyrissjóðs Austurlands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðna um málefni sjóðsins.
"Stjórn sjóðsins hefur á undanförnum þremur árum unnið að miklum endurbótum á starfsemi hans í samvinnu við nýjan rekstraraðila. Farið hefur verið í gegnum eignasafn sjóðsins og það skráð á réttan hátt auk þess sem öll upplýsingagjöf um fjárfestingar er orðin eins og best gerist. Samtímis hefur markvisst verið unnið að því að draga úr vægi óskráðra verðbréfa í eigu sjóðsins og nýr endurskoðandi, sem annast ytri og innri endurskoðun sjóðsins, hefur verið ráðinn til starfa. Núverandi stjórn hefur þannig með margvíslegum hætti endurskipulagt fjárfestingarstefnu og daglega starfsemi sjóðsins ásamt því að takast á við afleiðingar neikvæðrar ávöxtunar á undanförnum árum.
Þar sem málefni tengd sjóðnum eru fyrir dómstólum landsins telur stjórnin ekki rétt að fjalla um einstök efnisatriði sem meðal annars hafa verið gerð að umtalsefni í fjölmiðlum að undanförnu. Þess skal þó getið að starfslokasamningur við fyrrverandi framkvæmdastjóra var gerður skv. ákvæðum í upphaflegum ráðningarsamningi hans og efndur vegna eindreginna óska framkvæmdastjórans. Sömuleiðis skal upplýst að húsnæði fyrrverandi framkvæmdastjóra var keypt af honum skv. samkomulagi sem gert var er hann hóf störf hjá sjóðnum. Húsnæðið var síðan selt og vegna þróunar á fasteignamarkaði á Austurlandi var söluverð 500.000 krónum lægra en kaupverð.
Núverandi stjórn Lífeyrissjóðs Austurlands er sannfærð um að endurskipulagning á starfsemi sjóðsins hefur heppnast einkar vel sem m.a. hefur leitt til þess að rekstrarkostnaður sjóðsins er í dag með því lægsta sem gerist. Í ljósi þeirra málaferla sem nú standa yfir og annarra sem framundan eru telur stjórnin hins vegar rétt að nýir aðilar taki við stjórnartaumum á fyrirhuguðum fulltrúaráðsfundi 26. maí næstkomandi."