Skýrsla komin út um eftirlit vegna vangoldinna lífeyrisiðgjalda.

Skýrsla starfshóps sem hafði því hlutverki að gegna að gera tillögur til embættis ríkisskattstjóra um heildarskipulag eftirlits með  greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða er nýkomin út. 

Síðla árs 1997 voru sett lög, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lög þessi tóku gildi 1. júlí 1998.  Á grundvelli laganna kom út í júlí 1998 reglugerð nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. 

 Í 6. gr. laganna er kveðið á um eftirlit ríkisskattstjóra, en þar segir að ríkisskattstjóri skuli hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. 

 Eftirlitið nær eingöngu til skyldutryggingar lífeyrisréttinda.  Í V. kafla reglugerðarinnar, er nánari útfærsla á eftirliti ríkisskattstjóra Það er síðan hlutverk lífeyrissjóðanna að innheimta vangoldin lífeyrisiðgjöld.

Í lok nóvember árið 1999 skipaði ríkisskattstjóri starfshóp sem hafði því hlutverki að gegna að gera tillögu til embættisins um heildarskipulag eftirlitsins.  

Í erindisbréfi ríkisskattstjóra kemur m.a fram að megin verkefni starfshópsins sé að skipuleggja og undirbúa eftirlit embættis ríkisskattstjóra með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða. 

 Starfshópurinn skuli gera tillögu til embættisins um heildarskipulag eftirlitsins og skilgreina m.a. hvaða upplýsingar sjóðirnir skuli veita embættinu og á hvaða formi og með hvaða hætti upplýsingum um greidd og vangoldin iðgjöld verði komið til sjóðanna.  Í verkahring starfshópsins verði einnig að gera athugun á því, hvaða breytingar sé nauðsynlegt að gera á skilum launagreiðenda á upplýsingum um iðgjöld og laun og hvaða breytingar kunni að vera nauðsynlegt að gera á framtali einstaklinga og láta gera frumkostnaðaráætlun um slíkar breytingar.

 Starfshópurinn telur að þrennt beri að leggja mikla áherslu á að verði ætíð í góðu lagi varðandi eftirlit ríkisskattstjóra með greiðslu lífeyrisiðgjalda:

  •  Í fyrsta lagi, að upplýsingar um vanskil iðgjaldsþega, sem lífeyrissjóðirnir fá frá ríkisskattstjóra og upplýsingar sem ríkisskattstjóri fær frá lífeyrissjóðunum séu fullnægjandi og áreiðanlegar. 
  •  Í öðru lagi, að upplýsingarnar berist lífeyrissjóðum innan tiltekins tíma-frests svo að innheimtan dragist ekki á langinn.
  • Í þriðja lagi, að fylgst sé með að festa sé í innheimtu allra lífeyrissjóðanna. 

 Þrátt fyrir að starfshópurinn leggi mikla áherslu á ofangreinda þrjá þætti þá telur hann einnig mikilvægt að þau önnur atriði sem nefnd eru í skýrslunni komi til framkvæmda sem fyrst.