Samræmd framkvæmd skiptingar ellilífeyrisréttinda milli hjóna

Ákveðið hefur verið að Landssamtök lífeyrissjóða sjái um framkvæmd skiptingarinnar og tilkynni hlutaðeigandi lífeyrissjóðum um það samkomulag sem viðkomandi hjón eða sambúðaraðilar hafa gert. Með samræmdri framkvæmd skiptingar ellilífeyrisréttindanna er hægt að tryggja að skiptingin verði gagnkvæm hjá báðum aðilum og að allir hlutaðeigandi sjóðir taki þátt í skiptingunni.

Skipting ellilífeyrisréttindanna er þríþætt.

  1. Í fyrsta lagi er skipt samtímagreiðslu ellilífeyris, þ.e. þeim greiðslum sem nú eiga sér stað.
  2. Í öðru lagi er hægt að skipta þegar áunnum ellilífeyrisréttindum í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdomar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum.
  3. Í þriðja lagi er um að ræða skiptingu þeirra ellilífeyrisréttinda sem munu ávinnast eftir að samkomulag um skiptingu ellilífeyrisréttinda hefur verið gert.

Skiptingin getur því varðað réttindi í nútíð, fortíð og framtíð.


Landssamtök lífeyrissjóða munu sjá um samræmda framkvæmd skiptingarinnar og tilkynni hlutaðeigandi lífeyrissjóðum um það samkomulag sem viðkomandi hjón eða sambúðaraðilar hafa gert. Með samræmdri framkvæmd skiptingar ellilífeyrisréttindanna er hægt að tryggja að skiptingin verði gagnkvæm hjá báðum aðilum og að allir hlutaðeigandi sjóðir taki þátt í skiptingunni. Í því sambandi hafa Landssamtök lífeyrissjóða látið útbúa nýtt samræmt samningseyðublað, sem fæst hjá sjóðunum.


Fram kemur á samningseyðublaðinu að samningurinn gildi gagnvart öllum öðrum sjóðum, sem hlut eiga að máli. Aðeins er því þörf á að hjón eða sambúðaraðilar gangi formlega frá einum skriflegum samningi. Ljósrit eða afrit af samningum verða þá send til hlutaðeigandi sjóða. 


Eðlilegt er að sjóðfélagi snúi sér til þess lífeyrissjóðs sem hann greiðir nú iðgjald til eða hefur síðast greitt til og að sá sjóður annist frekari aðgerðir sem þörf er á í þessu sambandi. Sá lífeyrissjóður, sem tekur á móti samningi um skiptingu ellilífeyrisréttinda, mun senda staðfest ljósrit af samningnum ásamt öðrum gögnum, s.s. hjúskaparvottorði og læknisvottorði eða yfirlýsingu um heilsufar til Landssamtaka lífeyrissjóða, sem mun annast frekari framkvæmd málsins, þ.á.m. að senda hlutaðeigandi gögn til annarra lífeyrissjóða.


Varðandi skiptingu þegar áunninna lífeyrisréttinda, þá þurfa bæði hjónin eða sambúðaraðilar að óska eftir yfirlýsingu heimilislæknis um heilsufar, þ.e. að læknirinn telji að sjóðfélaginn sé ekki haldinn neinum þeim sjúkdómum eða kvillum sem líklegir séu til að draga úr lífslíkum hans. Ástæðan fyrir þessari beiðni er að samkvæmt lífeyrissjóðalögunum er heimilt að skipta áunnum ellilífeyrisréttindum milli hjóna eða sambúðarfólks í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum. Ef viðkomandi læknir vill ekki gefa út slíka yfirlýsingu, þá skal hann framkvæma læknisskoðun. Sjóðfélagi sem ekki hefur ekki heimilislækni skal snúa sér til þess læknis sem stundað hefur hann undanfarið.


Lífeyrissjóðurinn skal vegna skiptingar áunninna lífeyrisréttinda afhenda viðkomandi aðilum yfirlýsingu um heilsufar og heilbrigðisvottorð. Yfirlýsingu um heilsufar sem viðkomandi heimilislæknir hefur undirritað, skal sjóðfélaginn afhenda lífeyrissjóðnum en læknirinn skal hins vegar senda sjóðnum útfyllt heilbrigðisvottorð, ef við á. Lífeyrissjóðurinn sendir þessi gögn síðan til Landssamtaka lífeyrissjóða, sem lætur trúnaðarlækni sjóðsins meta, með hliðsjón af heilbrigðisvottorðinu, hvort sjúkdómar eða heilsufar sjóðfélagans dragi úr lífslíkum hans. Sjóðfélaginn greiðir sjálfur kostnað vegna öflunar yfirlýsingar um heilsufar eða vegna útgáfu heilbrigðisvottorðs. Kostnað vegna vinnu trúnaðarlæknis greiðir hins vegar viðkomandi lífeyrissjóður.


Fram til þessa hafa frekar fáir sjóðfélagar notfært sér ákvæði lífeyrissjóðalaganna um gagnkvæma skiptingu ellilífeyrisréttinda. Algengast er að skipta þegar áunnum ellilífeyrisréttindum og þá sérstaklega í tengslum við hjónaskilnað eða sambúðarslit.


Þrátt fyrir að færri hafi notfært sér að skipta ellilífeyrisréttindum en almennt var búist við þegar lögin voru sett, er þó nauðsynlegt að samræmi gæti hjá sjóðunum varðandi framkvæmd laganna, sérstaklega til að tryggja að allir hlutaðeigandi lífeyrissjóðir taki þátt í skiptingunni og að hún sé gagnkvæm og jöfn. Þá er ekki síður nauðsynlegt að túlkun ýmissa vafaatriða sé samræmd.