Rafræn iðgjaldaskil til lífeyrissjóða.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa gert samning við Streng um hönnun og útfærslu á vefþjónustu til móttöku skilagreina frá launakerfum. Samningur þessi tekur til gerðar skjölunar og kynningar fyrir hugbúnaðarframleiðendur og útfærslu á vefþjónustunni fyrir tvö rekstrarumhverfi.  

 Framleiðendur launakerfa munu sækja upplýsingar rafrænt inn á heimasíðu  Landssamtaka lífeyrissjóða um vefþjónustur innheimtuaðila og síðan tengjast þeim hverri af annarri til að koma upplýsingum áfram um lífeyrisiðgjöld, sjúkrasjóðsgreiðslur, stéttarfélagsgjöld o.fl. Kerfið verður útfært sem vefþjónusta sem móttekur og skilar gögnum á XML sniði. Annars vegar verður um að ræða vefþjónustu skrifaða í Java sem keyrt getur á Windows og Linux og hins vegar samhæfða vefþjónustu sem keyrir í .NET umhverfi.

Þróun á kerfinu fer fram á næstu vikum, prófanir verða í vor og búast má við fyrstu tengingum annarra launakerfisframleiðenda nú í sumar og haust.

Hugbúnaðurinn verður í eigu Landssamtaka lífeyrissjóða og verður lífeyrissjóðum innan samtakanna heimil afnot af honum. 

Fyrirhuguð er frekari kynning til lífeyrissjóðanna í næsta mánuði, en sérstakur kynningarfundur með framleiðendum launakerfa verður haldinn um miðjan mars n.k..


Á myndinni eru Ívar Harðarson, framkvæmdastjóri verkefna- og starfsmannasviðs Strengs, og Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.