Lífeyrissjóður lækna lækkar áunnin réttindi um 9%

 Þetta er í fyrsta sinn í sögu sjóðsins sem réttindi eru skert. Hins vegar voru þau þrisvar aukin frá 1997 um alls rúmlega 60%, síðast um 45% árið 2000. Eftir þessar breytingar sýnir tryggingafræðileg úttekt að heildarskuld­bind­ingar eru 4% umfram eignir sjóðsins.

Raunávöxtun sjóðsins hefur verið neikvæð síðustu þrjú árin, árið 2002 um -3,94% samkvæmt bráðabirgðauppgjöri. Erlendar eignir sjóðsins rýrnuðu mikið á árinu vegna verðlækkana á hlutabréfamörkuðum og hækkunar gengis íslensku krónunnar. Lækkun á erlendum eignum varð því 37%. Hins vegar skiluðu innlendar eignir sjóðsins í skuldabréfum 10,7% og hlutabréf 17,6% nafnávöxtun. Meðalraunávöxtun sjóðsins síðustu 5 árin er 2,4% og meðalraunávöxtun síðustu 10 ára er 5,4%.

 

Heildar­eignir Lífeyrissjóðs lækna í árslok 2002 voru 12,9 milljarðar og stækkaði sjóðurinn um 141 milljón á árinu. Greidd iðgjöld voru 714 milljónir króna og hækkuðu þau um 13%. Lífeyris­sjóðurinn greiddi 297 milljónir króna í lífeyri á árinu og jukust þær um 22% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur hafa vaxið mikið undanfarin ár og má sem dæmi nefna að þær hafa ellefufaldast á síðustu 10 árum.