Hagnaður Kauphallar Íslands h.f. eftir skatta nam 23,7 m.kr. samanborið við 19,0 m.kr. á árinu 2001. Félagið hefur hætt að verðleiðrétta reikningsskil í samræmi við lög samþykkt á Alþingi í lok árs 2001. Ef beitt hefði verið sömu reikningsskilaaðferð og á fyrra ári hefði hagnaður orðið 1,9 m.kr. lægri.
Afkoma ársins er nokkuð betri en gert var ráð fyrir í endurskoðaðri rekstraráætlun frá því í ágúst síðastliðnum og stafar það fyrst og fremst af meiri veltu skráðra verðbréfa en gert var ráð fyrir í forsendum rekstraráætlunar.
Horfur
Velta skráðra verðbréfa er sá þáttur sem hvað mest áhrif hefur á afkomu Kauphallarinnar og jafnframt hvað erfiðast er að spá fyrir um. Metvelta var á síðastliðnu ári, 1.133 ma.kr., og jókst veltan um meira en 50% frá fyrra ári. Mat Kauphallarinnar er að horfur fyrir árið séu ágætar og gera áætlanir hennar ráð fyrir 7% veltuaukningu milli ára. Gangi forsendur rekstraráætlunar eftir aukast veltugjöld um 8 m.kr. milli ára. Reiknað er með að aðrar tekjur, þ.m.t. stofngjöld, hækki um 17 m.kr. Jafnframt er ljóst að kostnaður eykst frá síðasta ári m.a. vegna upptöku nýs eftirlitskerfis, SMARTS, og aukins umfangs starfseminnar. Þannig er reiknað með að rekstrargjöld hækki um ríflega 30 m.kr. og að hagnaður verði 18 m.kr. á árinu sem svarar til um 11,5% arðsemi eigin fjár.
Aðalfundur Kauphallar Íslands
Aðalfundur Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf. verður haldinn fimmtudaginn 20. mars næstkomandi þar sem borinn verður upp fyrsti samstæðureikningur Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands. Aðalfundur Kauphallarinnar verður haldinn strax í kjölfarið. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 24% arður. Þennan arð greiðir Kauphöllin til Eignarhaldsfélagsins sem stofnað var á miðju síðasta ári um rekstur Kauphallarinnar og Verðbréfaskráningar. Eignarhaldsfélagið greiðir eigendum sínum tilsvarandi arð sem samsvarar 11%.