Jákvæð raunávöxtun hjá Lífeyrissjóði sjómanna á síðasta ári.

Lífeyrissjóður sjómanna hefur gengið frá ársreikningi fyrir árið 2002. Raunávöxtun á árinu var 0,63%. Ávöxtun innlendra skuldabréfa og hlutabréfa var góð á árinu, en neikvæð ávöxtun erlendra hlutabréfa dregur heildarávöxtun sjóðsins niður. Meðaltal heinnar raunávöxtunar sjóðsins s.l. 5 ár er 3,58%.  

Raunávöxtun skuldabréfa í eigu sjóðsins var 5,94%, ávöxtun innlendra hlutabréfa var 27,4%, en til samanburðar hækkaði úrvalsvísitala Kauphallar Íslands um 16,7%. Ávöxtun erlendra hlutabréfa sjóðsins var neikvæð um 31,3% í íslenskum krónum, en heimsvísitala hlutabréfa var neikvæð um 38,4%.



Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 47.062 millj. kr. í árslok 2002 og hækkaði hún um 4,9% frá fyrra ári. 74% af eignum sjóðsins eru í innlendum skuldabréfum, 14% í innlendum hlutabréfum og 12% í erlendum verðbréfum. Tryggingafræðileg staða batnar á milli ára, en í árslok 2002 á sjóðurinn eignir sem nema 1.151 milljón króna umfram áfallnar skuldbindingar (2,3% af skuldbindingum), en vantar 6.261 milljón til þess að eiga fyrir heildarskuldbindingum (-7,0% af heildarskuldbindingum).

Á árinu greiddu 636 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins, samtals að fjárhæð 2.240 milljónir króna, fyrir 5.476 sjóðfélaga. Sjóðfélagar í árslok voru 38.130. Lífeyrisgreiðslur námu 1.160 milljónum króna og heildarfjöldi þeirra sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 3.366.