Inneign í séreignarsjóðum skilgreind sem hjúskapareign.

Fyrir nokkru komst meirihluti gerðardóms að þeirri niðustöðu að inneign í séreignarsjóðum teldist hjúskapareign en ekki sem séreign samkvæmt hjúskaparlögum. Ágreiningurinn var milli aðila, þ.e. erfingja sjóðfélagans og lífeyrissjóðsins um hlutfallsskiptingu lífeyrissparnaðarins milli lögerfingja.   

Málsástæður voru þær að sjóðfélagi, sem átti innistæðu í séreignarreikningi (lífeyrissparnaði) í lífeyrissjóði, lést fyrir tveimur árum. Einu erfingjar voru eiginkona sjóðfélagans og eitt barn. Ágreiningurinn var milli aðila, þ.e. erfingja sjóðfélagans og lífeyrissjóðsins um hlutfallsskiptingu lífeyrissparnaðarins milli lögerfingja.  

 Sonur sjóðfélagans  taldi, með fullu samþykki móður sinnar, að inneignina bæri að skilgreina sem séreign samkvæmt hjúskaparlögum en ekki sem hjúskapareign með vísan til samþykkta lífeyrissjóðsins.  Því bæri að greiða honum 2/3 hluta af innistæðunni. Stjórn sjóðsins taldi hins vegar að séreign sjóðfélagans teldist til hjúskapareignar og ætti að skiptast sem slík.

 Sóknaraðili, sem í þessu tilviki var sonur sjóðfélagans, taldi að með vísan til 4. mgr. 11. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr.129/1997, sé vísað til erfðalaga og  að innistæðan sem um ræði falli ekki til dánarbúsins, heldur bæri lífeyrissjóðnum að greiða hann út til eftirlifandi maka og barna, en samkvæmt erfðalögum sé skiptareglan að maki erfi 1/3 hluta eigna þegar börn eru á lífi en börn 2/3.

Varnaraðili, þ.e. lífeyrissjóðurinn, taldi hins vegar að skilgreina bæri umrædda eign sem hjúskapareign, þannig að útgreiðslan skiptist þannig að sonurinn fengi 1/3 hluta lífeyrissparnaðarins en móðir hans 2/3 hluta.   Hvorki sé í hjúskaparlögum né í lífeyrissjóðalögum vísað til þess að séreign rétthafa í séreignarsjóðum lífeyrissjóða teljist til séreignar í skilningi hjúskaparlaga. Af því leiði að séreign sjóðfélagans í lífeyrissjóðnum teljist vera hjúskapareign og því skuli skipta eigninni í samræmi við reglur hjúskapar- og erfðalaga um það efni. 

Eins og áður segir staðfesti meirihluti gerðardómsins ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins að séreign teldist vera hjúskapareign og að sonurinn fengi  1/3 hluta lífeyrissparnaðarins en móðir hans 2/3 hluta.