Eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna yfir 100 milljarða.

Eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna námu 102 milljörðum í árslok og hækkaði eignin um 4,5 milljarða á árinu eða tæp 5%. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er fyrsti sjóðurinn sem birtir ársreikning sinn fyrir síðasta ár.

Á árinu 2002 greiddu rúmlega 41 þúsund sjóðfélagar til sjóðsins. Iðgjaldagreiðslur námu 7.383 m.kr. og er það aukning um rúm 8%.

Raunávöxtun sjóðsins var neikvæð um 2,7% samanborið við -0,7% raunávöxtun á árinu 2001. Meðalraunávöxtun sjóðsins síðustu 5 árin er 3,2% og meðalraunávöxtun síðustu 10 ára er 5,4%.

Ljóst er að með hækkandi hlutfalli innlendra og erlendra hlutabréfa í verðbréfasafni lífeyrissjóða mun verða vart meiri sveiflna í ávöxtun á komandi árum.

Raunávöxtun innlendra hlutabréfa hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna var 17,7% og nafnávöxtun 20% en til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitala aðallista Kauphallar Íslands um 16,7% á árinu 2002. Heildararðsemi innlendu hlutabréfaeignar sjóðsins yfir tímabilið 1980 til ársloka 2002 er 11,1%.

Ávöxtun erlendu hlutabréfaeignar sjóðsins í dollurum var -19,9% á síðasta ári en á sama tíma lækkaði heimsvísitala Morgan Stanley um 21,1%.  Að auki styrktist íslenska krónan um 13,5% á síðasta ári gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Tryggingafræðileg úttekt sem miðast við árslok 2002 sýnir að skuldbindingar námu 8% umfram eignir. Þar af hafa nýjar töflur um dánarlíkur, sem sýna auknar lífslíkur sjóðfélaga, áhrif  til hækkunar skuldbindinga sjóðsins um 2%. 

Á árinu 2002 námu iðgjöld til séreignardeildar sjóðsins 465 m.kr. samanborið við 252 m.kr. árið 2001 sem er aukning um 85% og nema eigir sjóðfélaga í árslok 1.069 m.kr. sem hækkun um 71% frá fyrra ári.