Ársuppgjör Sameinaða lífeyrissjóðsins birt.

Gengið hefur verið frá endurskoðuðu ársuppgjöri Sameinaða lífeyrissjóðsins vegna ársins 2002. Sjóðurinn greiðir verðtryggðan lífeyrir og varð 5,7% hækkun á lífeyri til lífeyrisþega á árinu 2002. Vegna fjölgunar lífeyrisþega og verðlagshækkunar nemur heildarhækkun greidds lífeyris 13,1%. Virkir sjóðfélagar voru 10.856 á árinu. Iðgjöld til grunndeilda sjóðsins námu 2,6 milljörðum. Nafnávöxtun sjóðsins á árinu 2002 var -8,1% og raunávöxtun -9,9%.

Slök ávöxtun sjóðsins skýrist af mikilli lækkun á verði erlendra verðbréfa sjóðsins í erlendri mynt og hækkun íslensku krónunnar á móti erlendum myntum. Ávöxtun erlendra verðbréfa sjóðsins á árinu var -38,4% í ísl. kr. Lækkunin stafar annars vegar af lækkun á gengi erlendra hlutabréfa sjóðsins í USD um 21,3% og hins vegar af lækkun á USD á móti ísl. kr. um 21,7%.

Teknar hafa verið í notkun nýjar töflur um lífaldur Íslendinga. Þær sýna að nú lifir fólk lengur en fyrir 5 árum. Þessi breyting eykur lífeyrisskuldbindingu sjóðsins um 2%.

Þrátt fyrir slaka ávöxtun sjóðsins síðustu þrjú ár og aukningu lífeyrisskuldbindingar vegna aukins lífaldurs kemur ekki til breytinga á réttindum sjóðfélaga.

Heildareignir aldurstengdrar deildar umfram skuldbindingu eru 2,9% og heildarskuldbinding stigadeildar sjóðsins umfram eign nemur 9%.