Seðlabanki Íslands sendi nýlega frá sér samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar fyrir árið 2022. Þar kemur fram að lífeyriseignir landsmanna hafi lækkað um 87 ma.kr. á árinu og að eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins í formi samtryggingar lífeyrissjóða, séreignar lífeyrissjóða og séreignar annarra vörsluaðila séreignarsparnaður séu nú um 186% af vergri landsframleiðslu.
Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var -11,6% að meðaltali á árinu og kom í kjölfar þriggja ára þar sem lífeyrissjóðir skiluðu raunávöxtun langt umfram viðmiðunarávöxtun skuldbindinga, sem er 3,5%. Hafa ber í huga að lífeyrissparnaður er langtímasparnaður og síðastliðin 10 ár hefur hrein raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða verið 4,7% að meðaltali.
Á árinu 2022 störfuðu 21 lífeyrissjóður í 25 samtryggingardeildum og af þeim buðu 13 sjóðir upp á séreignarsparnað í 43 deildum.
Eignir lífeyrissjóða við árslok 2022 voru um 6.620 milljarðar kr. Eignir samtryggingardeilda voru 5.919 milljarðar kr. og drógust saman um 1,9% milli ára og séreignarsparnaður í vörslu sjóðanna var 701 milljarður kr. og dróst saman um 0,7% milli ára. Í heild drógust lífeyriseignir landsmanna því saman á árinu 2022.
Iðgjöld í lífeyrissjóði námu 340 milljörðum kr. á árinu og jukust um 14% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum námu rúmlega 229 milljörðum kr. og skiptust upp í eftirfarandi flokka: Ellilífeyrir samtryggingar 163 ma.kr, örorkulífeyrir 28 ma.kr og maka- og barnalífeyrir 17 ma.kr. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeildum lífeyrissjóða námu 21 ma.kr á árinu, þar af voru 6 ma.kr. greiddir beint inn á húsnæðislán. Í heildina jukust lífeyrisgreiðslur um 11% frá fyrra ári.
Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á gagnsæi í kostnaði við rekstur sjóðanna. Bein og óbein fjárfestingargjöld eru stór útgjaldaliður lífeyrissjóða og námu þau 0,36% sem hlutfall af heildareignum en skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var 0,15%. Hlutdeild erlendra eigna var 37% af heildareignum í lok árs 2022 sem er svipað og árið á undan.
Tryggingafræðileg staða sjóðanna lækkaði milli ára og var neikvæð um 5,6% hjá þeim sjóðum sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda. Þeir þættir sem höfðu neikvæð áhrif á stöðuna voru: breytingar á réttindatöflum sjóðanna vegna hækkandi lífaldurs, neikvæð ávöxtun og mikil verðbólga á árinu.
Sjóðirnir hafa undanfarin tvö ár unnið að útfærslu á uppfærðum töflum fyrir dánar- og lífslíkur. Þetta kemur í kjölfar þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið birti nýjar töflur um lífslíkur þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi hækkun lífaldurs. Með uppfærslum á réttindatöflum sjóðanna ætti að nást betra jafnvægi milli eigna og skuldbindinga til framtíðar.
Samantekt frá Seðlabanka Íslands
Á Lífeyrismál.is má sjá helstu hagtölur lífeyrissjóða undir Tölur og gögn.