Seðlabanki Íslands sendi frá sér samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar fyrir árið 2021 þann 9. júní sl. Þar kemur fram að lífeyriseignir landsmanna hafi vaxið mikið á árinu og að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé nú það stærsta innan OECD sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF), eða um 219%. Danmörk og Holland fylgja á hæla Íslands með lífeyriseignir upp á 210% af VLF.
Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var 10,7% á árinu og er þetta þriðja árið í röð sem sjóðirnir skila raunávöxtun langt umfram viðmiðunarávöxtun skuldbindinga. Þó ber að hafa í huga að lífeyrissparnaður er langtímasparnaður og síðastliðin 10 ár hefur hrein raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða verið 6,7% að meðaltali.
Á árinu 2021 störfuðu 21 lífeyrissjóður í 25 samtryggingardeildum og af þeim buðu 13 sjóðir upp á séreignarsparnað í 45 deildum.
Eignir lífeyrissjóða við árslok 2021 voru um 6.738 milljarðar kr.: Eignir samtryggingardeilda 6.032 milljarðar kr., jukust um 17,6% milli ára og séreignarsparnaður í vörslu sjóðanna 706 milljarðar kr., með um 18,9% aukningu milli ára. Lífeyriseignir landsmanna jukust því umtalsvert á árinu sem leið.
Iðgjöld í lífeyrissjóði námu 297 milljörðum kr. á árinu og jukust um 9% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum námu rúmlega 206 milljörðum kr. og skiptust upp í eftirfarandi flokka: Samtryggingar-ellilífeyrir 144 ma.kr, örorkulífeyrir 25 ma.kr og maka- og barnalífeyrir 16 ma.kr. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeildum lífeyrissjóða námu 20,6 ma.kr á árinu. Í heildina jukust lífeyrisgreiðslur um 10% frá fyrra ári.
Lífeyrissjóðir eru umfangsmiklir fjárfestar í íslensku efnahagslífi og samkvæmt sjóðstreymi keyptu sjóðirnir skuldabréf fyrir um 456 ma.kr og hlutabréf fyrir 479 ma.kr. á árinu. Bein og óbein fjárfestingargjöld eru stór útgjaldaliður lífeyrissjóða og námu þau 0,34% sem hlutfall af heildareignum en skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var 0,15%. Hlutdeild erlendra eigna var 38% af heildareignum í lok árs 2021.
Undir lok síðasta árs voru nýjar töflur fyrir dánar- og lífslíkur birtar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu en með þeim er gert ráð fyrir að dánartíðni haldi áfram að lækka í framtíðinni. Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóða var metin út frá þessum breyttu forsendum við árslok 2021 sem hafði neikvæð áhrif á áfallna stöðu sjóðanna. Góð ávöxtun undanfarin ár hefur þó gert það að verkum að margir sjóðir hafa verið í stakk búnir til að auka réttindi sjóðfélaga á árinu. Litið til framtíðar munu lífeyrissjóðir þurfa að gera breytingar á réttindatöflum til að tryggja jafnvægi milli eigna og skuldbindinga sinna.
Samantekt frá Seðlabanka Íslands
Á Lífeyrismál.is má sjá helstu hagtölur lífeyrissjóða undir Tölur og gögn.