Grindvíkingum stendur til boða hjá lífeyrissjóðum að fresta um sinn greiðslum af sjóðfélagalánum sínum. Hvert einstakt erindi þar að lútandi er þá tekið til meðferðar og afgreiðslu samkvæmt umsókn sjóðfélaga til viðkomandi lífeyrissjóðs. Afborganir lána eru „frystar“ á meðan greiðsluhlé varir og lánstími lengist að jafnaði sem nemur lengd greiðsluhlésins.
Alls er skráð 131 sjóðfélagalán lífeyrissjóða í Grindavík. Þar af eru:
Upplýsingarnar sýna að áfram er greitt af meirihluta sjóðfélagalána Grindvíkinga og það á aðallega við um lægri lán. Þeir sem hafa hærri lán í þessum hópi kjósa frekar að óska eftir greiðsluhléi.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Landssamtök lífeyrissjóða sendu forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti í gær, 10. janúar 2024, í samræmi við niðurstöður fundar fulltrúa ráðuneytanna tveggja og Landssamtaka lífeyrissjóða 29. desember 2023. Tilefni fundarins var að fjalla um stöðu húsnæðislántakenda í Grindavík og kalla eftir frekari gögnum um staðreyndir og álitamál.
Rétt þykir að koma því sérstaklega á framfæri að greiðsluhlé, þar sem afborgunum af lánum er frestað, hefur takmörkuð áhrif á mánaðarlegar greiðslur að hléi loknu. Áhrifin eru, eins og fyrr greinir, að jafnaði þau að lánstími lengist.
Í bréfinu til ráðuneytanna er það ítrekað sem fram kom í minnisblaði Landssamtaka lífeyrissjóða til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis 13. desember 2023, að hlutverk lífeyrissjóða er að varsla og ávaxta lífeyrissparnað sjóðfélaga sinna og greiða þeim lífeyri. Lífeyrissjóðir telji sér ekki heimilt að fella niður með almennri aðgerð vexti og verðbætur sjóðfélagalána vegna ástands mála í Grindavík, án mats á stöðu einstakra lántakenda. Er þar vísað til þess að lífeyrisgreiðslur séu ávísun á lífeyrisréttindi sem aftur séu eign sjóðfélaga og njóti eignaréttarverndar samkvæmt Stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Því til stuðnings fylgja þrjú lögfræðiálit sem unnin hafa verið fyrir lífeyrissjóði af LEX lögmannsstofu, LOG lögmannsstofu og ARTA lögmönnum.
Þá er í bréfinu til ráðuneytanna vikið að því að þrýst sé á að lánveitendur taki á sig vexti og verðbætur við aðstæður jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesi. Slíkt hljóti að hafa til framtíðar áhrif á vilja og áhættumat lánveitenda varðandi lánafyrirgreiðslu á hliðstæðum landssvæðum. Lánveitendur væru þar með komnir „í hlutverk nokkurs konar náttúruhamfaratryggjenda þar sem þeir bæru að hluta til áhættuna ef það stofnaðist til vaxta- og verðbótaleysis vegna náttúruhamfara um ótilgreindan tíma.“
Vilji stjórnvöld koma í veg fyrir markaðsbrest af þessum ástæðum þurfi að kanna viðeigandi breytingar á tryggingakerfi náttúruhamfara.
Fylgiskjöl: