Landssamtök lífeyrissjóða þakka ánægjulegt samstarf á liðnu ári og óska landsmönnum öllum gleðilegs árs.
Í upphafi nýs árs ríkja vonir um bjartari tíma og því við hæfi að vekja athygli á umfjöllun í nýju riti OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um lífeyrismál þar sem íslensk rannsókn á nægjanleika lífeyrissparnaðar frá árinu 2014 fær sérstaka umfjöllun sem dæmi um vel heppnaða greiningu.
Ritið heitir Pensions Outlook og kemur út annað hvert ár. Í því er nú fjallað um stöðumat og stefnumótun stjórnvalda í lífeyrismálum. Covid-19 faraldurinn hefur veitt vinnumörkuðum og lífeyriskerfum þung högg og OECD beinir því sjónum að úrræðum til að efla kerfin til langframa. Mikilvægt er að framkvæma vandaða greiningu á nægjanleika og sjálfbærni kerfanna og seiglu lífeyrissparnaðar.
Íslenska rannsóknin var gerð í samstarfi Landssamtaka lífeyrissjóða og Fjármálaeftirlitsins með fjárstuðningi Evrópusambandsins. Fulltrúum LL og FME var á sínum tíma boðið að kynna framkvæmd og niðurstöður rannsóknarinnar fyrir fulltrúum um 40 Evrópuríkja í höfuðstöðvum ESB þar sem hún þótti góð fyrirmynd.
Ísland er á margan hátt í kjöraðstöðu til rannsaka lífeyriskerfið þar sem gögn allra lífeyrissjóðanna eru í einungis þremur tölvukerfum og gagnagrunnar Tryggingastofnunar, Skattsins og Hagstofunnar eru aðgengilegir til rannsókna. Þetta kemur sér vel í undirbúningi svonefndrar grænbókar um lífeyrismál sem íslensk stjórnvöld hyggjast gefa út á vormánuðum ársins 2021.