Birta lífeyrissjóður varð til við sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Sjóðurinn tók formlega til starfa í dag 1. desember. Sameiningin var samþykkt einróma á aukaársfundum beggja sjóða og síðan staðfest á stofnfundi Birtu 29. september síðastliðinn.
Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign sem nemur um 310 milljörðum króna. Birta lífeyrissjóður er til húsa í Sundagörðum 2 í Reykjavík, þar sem Sameinaði lífeyrissjóðurinn hafði aðsetur. Vefsíða Birtu lífeyrissjóðs er www.birta.is.
Stofnun Birtu lífeyrissjóðs er liður í hagræðingu sem átt hefur sér stað í lífeyriskerfi landsmanna undanfarin ár og miðar að því að styrkja innviði sjóðanna svo þeir geti haldið áfram að mæta auknum kröfum og veita betri þjónustu án viðbótarkostnaðar.