Nýjar hagtölur lífeyrissjóða eru nú komnar á vefinn okkar Lífeyrismál.is og eru aðgengilegar hér.
Þar má sjá að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum landsmanna halda áfram að vaxa eins og undanfarin ár og lífeyrisþegum fjölgar sömuleiðis sem þýðir að sjóðirnir hafa stöðugt meira umleikis í starfsemi sinni. Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður þeirra lækkað mældur sem hlutfall af hreinni eign til greiðslu lífeyris.
Hagtölurnar eru yfirfarnar og birtar uppfærðar hvert haust hér á Lífeyrismál.is. Þar má sjá ítarlega samantekt talnaefnis um starfsemi sjóðanna og sundurliðun þess, m.a. hreina eign sjóðanna frá 1998, heildareign þeirra sem % af vergri landsframleiðslu, rekstrarkostnað og fjárfestingargjöld, hreina raunávöxtun frá 1997, skiptingu greiðslutegunda lífeyris frá 1998, hlutfall örorkulífeyris, þróun lífeyrisgreiðslna og fjölda lífeyrisþega og samanburð lífeyrisgreiðslna á milli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna.
Hægt er að skoða hagtölurnar bæði myndrænt og í töflum. Skýrt má sjá mjög ákveðna þróun kerfisins í heild þar sem sjóðirnir fara stöðugt vaxandi, lífeyrisgreiðslur aukast jafnt og þétt og sjóðfélögum og lífeyrisþegum fjölgar. Þetta er í fullu samræmi við áætlanir og væntingar eftir því sem lengra líður frá setningu lífeyrissjóðslaganna (1997), sem fela í sér skyldu allra á aldrinum 16 til 70 ára til að greiða iðgjald í lífeyrissjóð af öllum launum. Þar sem þjóðin er enn tiltölulega ung að árum þýðir þetta að enn um nokkra framtíð verða iðgjöldin hærri en útgreiddur lífeyrir, þar sem vinnandi kynslóðir greiða iðgjöld til að safna eigin lífeyrisréttindum.
Í hagtölum nú má sjá að skrifstofu- og stjórnunarkostnaður er innan við 0,2% sem er lágt í alþjóðlegu samhengi eins og sjá má af samanburði OECD, sem einnig er birtur með hagtölum. Þá er það nýjung að í samræmi við nýjar reglur eru nú birtar upplýsingar um fjárfestingargjöld. Þau eru þó jafnan ekki höfð með í t.d. alþjóðlegum samanburði, þar sem fjárfestingargjöld koma fram í afkomu lífeyrissjóða og annarra fjárfestingarsjóða.
Þá má glöggt sjá að hjá flestum lífeyrissjóðunum jukust útlán til sjóðfélaga (lífeyrissjóðslán) talsvert á árinu 2016 sem hlutfall af hreinni eign miðað við næstu ár á undan. Rétt er að benda á að hér kemur ekki fram að á árunum upp úr aldamótunum fram til 2016 hafði þetta hlutfall lækkað talsvert. Mikil % hækkun nú gefur því ekki nákvæma mynd af langtímaþróun hlutfalls sjóðfélagalánanna sem hlutfalli af hreinni eign.
Hagtölur lífeyrissjóða ná til ársins 2016 og er að miklu leyti byggt á árlegri samantekt Fjármálaeftirlitsins á ársreikningum lífeyrissjóða, einnig ársskýrslum lífeyrissjóða, staðtölum frá Tryggingastofnun ríkisins, Ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands, Seðlabankanum og OECD.