„Ungt fólk er almennt ekki meðvitað um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði, sem eðlilegt er. Okkar markmið er að styðja það í fyrstu skrefunum, sýna krökkunum á einfaldan hátt hvernig kerfið virkar og svara spurningum sem hafa vaknað en þeir hafa ekki haft sig upp í að spyrja annars staðar.“
Kristín Ýr Gunnarsdóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Alþýðusambandi Íslands, hefur umsjón með fræðslustundum ASÍ í framhaldsskólum landsins. Verkefninu var hrundið úr vör fyrir um einu ári síðan. Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, annaðist það fyrst en síðan var Kristín Ýr ráðin til að veita verkefninu forstöðu en Halldór vinnur að því með henni ásamt öðru.
Framhaldsskólanemarnir fá myndbandakynningu um nokkur lykilatriði varðandi vinnumarkaðinn: stéttarfélögin, vinnutíma, kaffitíma, veikindarétt, launaseðla, kjarasamninga og fleira. Að sýningu lokinni spjalla Kristín Ýr eða fulltrúar stéttarfélaga í heimabyggð við ungmennin.
Lífeyrissjóði ber alltaf á góma, einkum þegar farið er yfir launaseðla og hvernig ber að lesa þá og skilja. Nú verður markvissari fræðslu um lífeyrissjóðakerfið bætt við með kynningarmyndbandi sem Landssamtök lífeyrissjóða hafa látið gera og leggja Alþýðusambandinu til af þessu tilefni.
„Við höfum frumkvæði að þessari fræðslu með því að senda bréf til námsráðgjafa framhaldsskólanna og fáum oft svör frá lífsleiknikennurum eða umsjónarkennurum útskriftarárganga sem þiggja fræðslu og bjóða okkur til sín í skólana.
Við hittum fyrir sextán til nítján ára gamla nema og þeir elstu hafa yfirleitt reynslu af sumarvinnu eða hlutastarfi með námi. Í mörgum tilvikum hafa þeir upplifað árekstra af einhverju tagi á vinnustöðum sínum. Þetta er sá hópur sem líklega er mest svindlað á, til dæmis varðandi veikindadaga. Algengt að nemarnir geri sér ekki grein fyrir því að fólk í hlutastarfi á sama rétt á veikindadögum og væri það í fullu starfi. Við heyrum margar sögur af árekstrum vegna þessa.
Mörgum þykir flókið að skilja launaseðlana sína og við sýnum krökkunum hvernig þeir geti og eigi að fylgjast með vinnustundum sínum og veikindadögum til að hafa á hreinu að greiðslur séu samkvæmt kjarasamningum. Með þessu er ekki verið að segja að fólk eigi stöðugt að vera á vaktinni gagnvart svindli heldur miklu frekar að fylgjast vel með. Mannleg mistök geta alltaf átt sér stað við skráningu og færslu í upplýsingakerfum og launafólkið sjálft á að líta eftir því að allt sé gert upp eftir bókinni.
Við förum að sjálfsögðu ekki aðeins yfir réttindi heldur líka skyldur á vinnumarkaði, til dæmis að virða rétt til veikindaleyfis en misnota hann ekki.“