Árið sem rennur senn á enda var sérstætt og verður okkur minnisstætt vegna tvennra tímamóta sem tengjast lífeyrissjóðakerfinu.
Efnt hefur verið til mannamóta af minna tilefni og það gerðu Landssamtök lífeyrissjóða að sjálfsögðu í vor og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins - LSR í nóvember.
Tímamótin voru fyrst og fremst nýtt til að vekja athygli á lífeyrissjóðum og grunngildi þeirra. Enn fremur var stuðlað að aukinni þjóðfélagsumræðu um stöðu lífeyrissjóðakerfisins, styrk þess og um það sem mætti mögulega betur fara.
Söguleg upprifjun í máli og myndum jók skilning okkar og varpaði ljósi á á framsýni frumkvöðla að stofnun fyrstu lífeyrissjóða skömmu eftir að Íslendingar lýstu yfir fullveldi.
Þá skynjum við nú betur en áður hve mikla ábyrgð og kjark samningamenn sýndu með því að ákveða skylduaðild að lífeyrissjóðum vorið 1969 og tryggja jafnræði verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna. Þetta gerðist á tímum djúprar efnahagskreppu og fjöldaatvinnuleysis.
Síðast en ekki síst hefur umræðan á afmælisárinu skerpt skilning okkar á því hve öflugt lífeyrissjóðakerfið er í raun og í hverju styrkur þess liggur.
Nú eru boðaðar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Drög að frumvarpi þar að lútandi hafa þegar verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda.
Endurskoðun laganna er vandasamt og krefjandi verkefni. Landssamtök lífeyrissjóða bentu á það í umsögn sinni að innan lífeyrissjóðakerfisins væru sérfræðingar um margvísleg efni sem málið varðaði. Gagnlegt hlyti að vera að eiga við þá samstarf áður en frumvarpið tæki á sig endanlega mynd.
Okkur þykir það reyndar sjálfgefið að stjórnvöld leiti samráðs við aðila vinnumarkaðarins og sérfræðinga í lífeyriskerfinu af þessu tilefni. Dæmi sýna líka og sanna að ekki gefst vel að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið taki veigamiklar ákvarðanir varðandi lífseyrissjóði án samráðs við aðila vinnumarkaðarins, bakland sjóðanna, og þá sem sérþekkingu hafa á ýmsum málefnum sem lífeyrissjóði varða.
Mikilvægt er að fjalla um lífeyrissjóðakerfið í heild og um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Við leggjum áherslu á tryggingaverndina sem grunnþátt en að litið verði til þess að gera kerfið sveigjanlegra. Þá verði fjallað sérstaklega um réttindamálin með úrbætur í huga þar sem það á við.
Aðalatriðið er að um breytingar á lífeyrisjóðakerfinu ríki víðtæk sátt og samvinna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Þegar allt kemur til alls erum við stoltar af því sem lífeyrissjóðakerfið áorkar og bjartsýnar fyrir hönd þess.
Gleðilega hátíð með ósk um farsæld á nýju ári. Þökkum fyrir samstarf og samvinnu á afmælisárinu sem líður senn í aldanna skaut.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða
|
Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
|
Linkur á Afmælisárið mikla í lífeyrissjóðakerfinu - 2019