„Íslenskum lífeyrissjóðum ber skylda til þess lögum samkvæmt að setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum. Þeir eiga að líta á það sem tækifæri og áskorun en ekki ógnun og ættu að tileinka sér viðhorf erlendra sjóða sem taka til dæmis loftslags- og umhverfismál alvarlega í fjárfestingunum með góðum árangri.“
Kristján Guy Burgess er sjálfstætt starfandi ráðgjafi, sagnfræðingur frá Háskóla Íslands með framhaldsmenntun í alþjóðastjórnmálafræði og alþjóðalögum. Hann hefur meðal annars verið fréttamaður Ríkisútvarpsins, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, starfað hjá Atlantshafsbandalaginu og verið framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
Landssamtök lífeyrissjóða fengu hann til að flytja erindi núna í október 2017 á fundi með stjórnendum, starfsfólki og stjórnarmönnum sjóðanna sem innlegg í umræður á vettvangi lífeyrissjóða um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar. Kristján fjallaði þar um breytt viðhorf stórra alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta sem birtast meðal annars í seinni tíð í siðareglum og ströngum siðferðisviðmiðum í fjárfestingum.
Tilefni fundarins var lagaákvæði um að lífeyrissjóðir setji sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.
„Mér virðist sem lífeyrissjóðir á Íslandi hafi leitast við að draga lærdóma af efnahagshruninu og úttektarskýrslu um starfsemi sína að svo miklu leyti sem þeir hafa getað það, lokaðir um árabil innan gjaldeyrishafta. Þeir þurfa nú í mun meira mæli en áður að fara út í heim og vera ábyrgir fjárfestar, markvisst og meðvitað, líta til allra þátta og mælikvarða sem fyrirmyndarsjóðir starfa eftir og eru þekktir fyrir. Þar er nærtækast að benda á Norska olíusjóðinn og sænsku AP-sjóðina, einnig hollenska ABP-sjóðinn og fleiri.
Ég lít svo á að íslenskir lífeyrissjóðir séu í grunnbúðum og framundan sé klifur á þeirri leið sem óhjákvæmilegt er að þeir feti tíðarandans vegna. Fjárfestingar eiga í auknum mæli að endurspegla gildismat sjóðfélaganna sjálfra. Almenningsálitið skiptir meira máli en áður og fólk veltir fyrir sér áhrifum fjárfestinga og annarra ákvarðana lífeyrissjóðanna sinna á samfélagið og umhverfið bæði í víðum og þröngum skilningi. Til þess að komast upp úr grunnbúðum og á tindinn, þarf réttan búnað, góða leiðsögumenn og að læra af þeim sem hafa komist ofar í hlíðarnar.
Jafnframt vil ég samt benda á að íslenskir lífeyrissjóðir geta líka verið fyrirmyndir að sumu leyti því þeir eru líklega lengra komnir en margir erlendir sjóðir varðandi stjórnarhætti, til dæmis bónusgreiðslur, hlutfall kynja og fleira. “
– Hvað nákvæmlega gerir Norski olíusjóðurinn sem þér þykir vera til fyrirmyndar?
„Hann hefur sett sér almennar en skýrar og aðgengilegar siða- og viðmiðunarreglur fyrir fjárfestingar. Þar er til dæmis horft til mannréttinda, sérstaklega varðandi réttindi barna og barnaþrælkun og kveðið á um umhverfismarkmið varðandi loftslag og vatnsbúskap.
Nýverið samþykkti sjóðurinn skilyrði til fjárfestinga í iðnaði sem notar kolabrennslu í rekstri sínum. Uppfylli fyrirtæki ekki skilyrði eða sinni tilmælum sjóðsins um umhverfisvænni starfsemi vofir yfir þeim að sjóðurinn losi um fjárfestingu sína í þeim. Slíkt kann að setja af stað umfangsmeiri atburðarás því Norski olíusjóðurinn er gríðarlega umsvifamikill og áhrifaríkur fjárfestir á heimsvísu. Hann hefur til dæmis sett saman og birt langan lista yfir fyrirtæki sem hann fjárfestir ekki í af tilgreindum ástæðum sem samræmast ekki gildum og siðareglum sjóðsins.“
– Sérðu fyrir þér að íslenskir lífeyrissjóðir fari líka að setja saman svartan lista yfir fyrirtæki á hlutabréfamarkaði hér heima?
„Nei, ég á erfitt með að ímynda mér að íslensk hlutafélög verðskuldi að lenda á slíkum lista. Fyrirtæki hér hafa mörg hver sett sér skýra og góða umhverfisstefnu, greint kolefnisfótspor sín og stigið fleiri jákvæð skref af því tagi. Ég held þó að þróun í átt til ábyrgari fjárfestinga af hálfu lífeyrissjóða og aukin vitund sjóðastýringarfyrirtækja og annarra fjárfesta muni leiða til þess að íslensk fyrirtæki reyni að gera enn betur en nú. Kauphöllin hefur komið sér upp viðmiðunarreglum og til stendur að stofna heildarsamtök um ábyrgar fjárfestingar. Allt mun þetta verða til þess að þróa þetta svið áfram.
Úti í heimi horfa fjárfestar á risastór fyrirtæki í olíuframleiðslu og olíuvinnslu og meta loftslagsáhættu af starfsemi þeirra. Eru þau góðir fjárfestingarkostir til lengri tíma? Hver er áhættan? Hver er framtíð þessara fyrirtækja í ljósi þess að olía er takmarkaður orkugjafi sem gengur til þurrðar, svo ekki sé talað um umhverfisáhrif starfseminnar?
Ég tel óþarft að blanda til dæmis starfsemi íslensku olíufélaganna inn í slíka umræðu. Þau eru fyrst og fremst smásalar og ekki í sambærilegri starfsemi og alþjóðlegir olíurisar.“
– Er Norski olíusjóðurinn þá svo áhrifamikill að íslenskir lífeyrissjóðir geti tæpast sett sér leikreglur og siðaviðmið án þess að líta til orða hans og athafna?
„Olíusjóðurinn er vissulega afar áhrifamikill. Ef hann ákveður að losa um hlutabréf í tilteknu félagi og setja fyrirtækið jafnvel á svartan lista af einhverjum ástæðum hefur það oft mun víðtækari áhrif.
Hins vegar má benda á að fjórir af sænsku AP-sjóðunum leitast við að ná markmiðum sínum með því að hafa áhrif til góðs á starfshætti fyrirtækja frekar en að útiloka þau sem fjárfestingarkosti.
Í öðru lagi nefni ég að AP-sjóðirnir hafa í áratug verið með sameiginlegt siðaráð. Það þykir mér áhugavert.“
– Ættu íslenskir lífeyrissjóðir að velta slíku fyrir sér?
„Já, tvímælalaust. Lífeyrissjóðirnir þurfa að meta það hver fyrir sig hvernig þeir uppfylla lagaskyldur um siðferðileg viðmið í fjárfestingum. Að mörgu leyti væri það heppilegt fyrirkomulag að sameinast um siðaráð sem væri á vaktinni til að tryggja að starfað væri í samræmi við siðferðisleg viðmið í fjárfestingum og í anda hinna nýju laga.
Löggjafinn skyldaði ekki sjóðina til sameiginlegra siðamarkmiða, sem var að mínu mati skynsamlegt. Sameiginlegt siðaráð, sem hver lífeyrissjóður væri frjáls að því að eiga aðild að ásamt öðrum sjóðum, er vissulega íhugunarefni. Þannig gefst ekki síst tækifæri til að sýna í verki að sjóðirnir vilji tileinka sér gildismat sjóðfélaga sinna og starfa í þeim anda fyrir opnum tjöldum.“
– Fjárfestar ætla sér að ná góðri ávöxtun og af þeim er ætlast að fjárfestingar skili viðundandi ávöxtun og helst meiru til. Sýnir reynslan að ábyrgar fjárfestingar borgi sig eða eru þær á kostnað ávöxtunar?
„Þeirri spurningu er einfalt að svara. Það er ekki svo að fagfjárfestar eigi að horfa staðfastir til göfugra markmiða og hljóti um leið að fórna ávöxtun fjármuna sinna. Fjármálamarkaðir þróast þannig að á örfáum árum hafa orðið til kostir og leiðir í ábyrgum fjárfestingum sem eru ekki síðri og jafnvel betri en það sem áður var metið ákjósanlegt til að setja peninga í. Ég bendi á rannsókn á vegum Harvard háskóla í Bandaríkjunum frá 2016 þar sem kom fram að fyrirtæki með góða einkunn um ábyrgð skiluðu betri ávöxtun en fyrirtæki með lága einkunn. Stóru sjóðastýringafyrirtækin úti í heimi hafa komist að sömu niðurstöðu og staðan er þannig að virtir erlendir fjölmiðlar hafa talað um „sprengingu” í ábyrgum fjárfestingum.
Það er þetta sem ég tel að íslensku lífeyrissjóðirnir eigi að tileinka sér í erlendum fjárfestingum, að þeir setji sér stefnu um að fjárfesta ekki fjármuni íslenskra sjóðfélaga í fyrirtækjum sem hagnast til dæmis á vopnasölu eða tóbaksframleiðslu, svo ég nefni tvennt. Þeir leiti á hinn bóginn ávöxtunarleiða sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Erlendar rannsóknir sýna að þetta er hægt án þess að gefinn sé afsláttur af ávöxtuninni og þá vil ég meina að allir græði.
Ábyrgar fjárfestingar eru ekki „jaðarsvið“ heldur námu þær um einum fimmta heildarfjárfestinga í Bandaríkjunum á árinu 2016.
Ábyrgum fjárfestingarkostum fjölgar sífellt og kannanir sýna að ungir fjárfestar eru mun líklegri til að fjárfesta í verðbréfum sem miða að jákvæðum áhrifum fyrir umhverfi og samfélag en þeir eldri.
Siðareglur og ábyrgar fjárfestingar eru í takt við strauma tímans. Lagaákvæði um siðferðiviðmið í fjárfestingum íslenskra lífeyrissjóða er þannig tímanna tákn í bókstaflegum skilningi.“